Opinn félagsfundur SLF 11. apríl kl. 17-19

Stjórn SLF býður til opins félagsfundar, fimmtudaginn 11. apríl kl. 17-19, í húsnæði félagsins að Háaleitisbraut 13. Markmið fundarins er að varpa ljósi á þær breytingar sem hafa orðið á hugtakinu fötlun og hvar SLF stendur með tilliti til þeirra breytinga. Fólk með ólíka þekkingu og reynslu af þjónustu og þeirri hugmyndafræði sem talið er æskilegt að leiði þjónustu við fatlað fólk munu taka til máls. Bergljót Borg, framkvæmdarstjóri SLF flytur inngangserindi um sögu, nýsköpun og framtíðartækifæri SLF, ásamt erindum frá Freyju Haraldsdóttur, doktorsnema og Lindu Björk Ólafsdóttur, doktor í fötlunarfræðum og lektor við Háskólann á Akureyri. Hörður Sigurðsson, formaður SLF ásamt foreldrum úr notendahópi taka þátt í umræðum.
 
SLF á sér langa og merkilega sögu en félagið hefur frá upphafi rutt braut og unnið dýrmætt frumkvöðlastarf í þjónustu við fötluð börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Í dag er blómleg starfsemi á vegum félagsins einkum fólgin í margvíslegri þjónustu undir merkjum Æfingastöðvarinnar og Reykjadals. Víðtækar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu hvað varðar réttindi fatlaðs fólks, stuðning og þjónustu. Í ljósi þess er kominn tími til að líta aðeins um farinn veg og skerpa á áherslum félagsins í takti við nýja tíma. Þá er mikilvægt að nýta kraftinn úr fortíðinni og grípa tækifærin í framtíðinni til að styrkja enn frekar stöðu félagsins í dag.
 
Öflugt félagsfólk er undirstaða þjónustunnar sem félagið veitir. Þau skapa þá innri krafta og notendamiðuðu sýn sem aðgreinir starfsemi félagasamtaka frá opinberum rekstri. Félagar eru uppspretta hugmynda um hvernig starfsemin skuli þróast og hvaða stuðningsþarfir ætti að hafa í forgrunni. Þannig eru félagsmenn nauðsynlegir bakhjarlar í mótun þjónustunnar.
 
Við viljum eindregið hvetja félaga og aðra áhugasama til að mæta og kynna sér það sem er á döfinni hjá félaginu eða til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Frekari upplýsingar má finna á síðu viðburðarins. 
Félagsmenn geta bókað barnagæslu á meðan á fundi stendur - mikilvægt er að bóka fyrirfram hér: https://tinyurl.com/2ewp6b9p
 
Félagsfólk er vinsamlegast beðið að skrá tengiliðaupplýsingar fyrir félagatal SLF hér: https://www.slf.is/.../index/index/postlisti-felaga-slf
Viltu gerast félagi? Fylltu út umsókn hér: https://www.slf.is/.../styrktarfelag.../viltu-gerast-felagi
 
 

Vinsamlegast athugið að á viðburðinum eru teknar myndir og myndbönd sem notuð eru í markaðsstarfi SLF. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar í netfang kristindagmar@slf.is