Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Það er hverju barni mikilvægt að vera sjálfbjarga með að klæða sig í og úr. Það eykur sjálfstæði þeirra og trú á eigin getu. Hafa ber í huga að það er auðveldara að klæða sig úr fötum en í þau. Leiðbeina þarf barninu og gefa því tíma til að klæða sig sjálft.
Að læra að renna, hneppa, smella og reima getur verið flókið. Það krefst þolinmæði og sífelldrar endurtekningar, en æfingin skapar meistarann.
Ef barn á erfitt með að finna út hvað snýr fram og hvað aftur á flík er ráð að kenna því að merki innan á hálsmáli flíkar sé að aftan. Oft getur það auðveldað barninu að hafa mynd framan á flíkinni. Áður en barn fer í sokka er gott að benda því á að snúa hæl sokksins niður.
Það að festa rennilás krefst góðrar sambeitingar handa. Mikilvægt er að sýna barninu hvernig best er að bera sig að og kenna því þannig réttu tökin frá upphafi. Rennilásinn er festur saman með báðum höndum, önnur hendi heldur flíkinni niðri á meðan hin rennir lásnum upp.
Ef barn á í basli með að renna rennilás er ráð að festa í hann hring eða lyklakippu sem auðveldar barninu að ná taki.
Þegar barn er að læra að hneppa er gott að hafa stórar tölur sem ekki eru festar þétt að flíkinni. Mikilvægt er að hnappagöt séu rúm. Kennið barninu að byrja neðst svo það hneppi ekki skakkt.
Það getur verið snúið að læra að reima og krefst skipulags. Sýna þarf barninu hvernig best er að bera sig að, leiðbeina því og hvetja það síðan til að spreyta sig sjálft. Gott er að kenna þeim fyrst að gera hnút áður en þeim er leiðbeint með slaufuna.
Unnið af iðjuþjálfum Æfingastöðvarinnar 2009.