Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
KETKRÓKUR KEMST Í FEITT
Norðanbálið hamast
svo hvorki heyrist
spunahljóð né spjall.
Húsbændur loka að sér
í rekkjunni.
Engin leið að vita
hvort það er ástin eða óveðrið
sem lætur allt leika á skjálfi.
Heimasætan grúfir sig
yfir askinn,
slafrar í sig lambi
og laumast til að góna á
nýfermdan niðursetninginn.
Það sem menn stælast
af dúntekju og dagróðrum!
Svo er bitinn búinn
en meira bíður
inni í eldhúsi.
Göngin fyllast af
forvitnum draugum
(aðallega fyrri ábúendur
og stöku útburður).
Stúlkan olnbogar sig
að hlóðunum
og lyftir upp lokinu.
Þá berst brölt af sperru,
spyrnt er í háfinn.
Krókur sígur
niður úr kófinu,
glampandi öngull
í myrkurhyl.
Sterklegar greipar
ljúkast um færið.
Stúlkan bregst skjótt við,
handtökin snör eftir
spuna og gegningar.
Hún grípur krókinn
og festir við klukku og kot.
,,Hirtu ekki um kjötið!
Steldu mér!
Ég er steini léttari!”
Gerður Kristný