Karfan þín

Karfan er tóm.

Vörunúmer: KULA19

Kærleikskúlan 2021 - Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. 

Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Kærleikskúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi og kemur í fallegri gjafaöskju.

Vara er ekki til sölu

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021.

Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.

- Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Sirra Sigrún Sigurðardóttir hefur lengi tekið virkan þátt í íslensku listalífi en hún er einn af stofnendum Kling & Bang. Sirra lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og útskrifaðist með meistaragráðu frá School of Visual Arts í New York 2013. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan vangaveltum um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau sýna oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. Sirra hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Kling & Bang. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víða um heim, þar á meðal í Kína, Finnlandi og á Englandi. Sirra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir list sína og m.a. fengið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og verðlaun Guðmundu S. Kristinsdóttur.