Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Bergljót Borg, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, hafa undirritað styrksamkomulag vegna Ævintýrabúða Reykjadals í Skagafirði næstu tvö árin, 2024 og 2025. Ævintýrabúðirnar eru sumarbúðir fyrir börn með stuðningsþarfir vegna ADHD, einhverfu eða andlegra áskorana. Þær eru starfræktar í Háholti sem er í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Markmið Ævintýrabúðanna er að fjölga valkostum í afþreyingu og tómstundum fyrir fötluð börn og ungmenni, styðja fjölskyldur og rjúfa félagslega einangrun fatlaðra barna. Hugmyndafræði sumarbúðanna tengist því sem unnið er að í Reykjadal í Mosfellsdal þar sem rauði þráðurinn er að öll fái tækifæri til að njóta sín á jafningjagrundvelli. Í Ævintýrabúðunum er lögð mikil áhersla á seiglu, áskoranir og auðvitað ævintýri í litlum og nánum hópi barna og starfsmanna. Skagafjörðurinn og Norðurlandið sjálft býður upp á frábær tækifæri fyrir börn og ungmenni þegar kemur að útiveru, íþróttum og menningu. Þetta verður í fimmta sinn sem SLF starfrækir Ævintýrabúðirnar í Háholti og það er mikil tilhlökkun fyrir sumrinu 2024!
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði fyrir sumarið 2024. Sækja má um dvöl hér á heimasíðu SLF.