Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Í vor stendur unglingum á aldrinum 14-16 ára til boða að sækja spennandi ævintýranámskeið á Æfingastöðinni. Námskeiðið hentar unglingum sem af einhverjum orsökum hafa haft færri tækifæri til að þróa félagslega færni og auka sjálfstraust. Megintilgangur námskeiðsins er að efla sjálfstraust og félagsfærni, víkka sjóndeildarhring unglinganna og stuðla að aukinni virkni í daglegu lífi.
Námskeiðið byggir meðal annars á hugmyndafræði reynslunáms þar sem þátttakendur læra með því að framkvæma hin ýmsu verkefni sem reyna á andlega, líkamlega og vitræna færni þeirra í oft á tíðum krefjandi en öruggum aðstæðum. Að námskeiðinu standa fjórir þjálfarar sem hafa víðtæka reynslu af starfi með unglingum, ævintýrameðferð og útivist. Á námskeiðinu fá þátttakendur stuðning við að setja sér persónuleg markmið og þjálfarar hópsins reyna að skapa þeim tækifæri til að vinna að markmiðum sínum í gegnum verkefni.
Námskeiðið er kjörið fyrir þá sem hafa áhuga á að takast á við áskoranir og fara út fyrir þægindarammann. Með því að taka þátt í svona námskeiði kynnast þátttakendur sjálfum sér betur, bæði styrkleikum og veikleikum. Á námskeiðinu verður t.d. farið í gönguferð um óbyggðir með allan búnað og gist í tjöldum ásamt ýmsum verkefnum og leikjum sem reyna á traust, þátttöku, útsjónasemi, ábyrgð, samvinnu og fleira.
Námskeiðið hefst 11.apríl og lýkur 20.júní. Námskeiðið verður á miðvikudögum frá kl. 16-18 auk þess sem farið verður í einnar nætur ævintýraferð í Reykjadal 9.-10. maí og tveggja nótta útilegu 12.-14. júní
Sæunn Pétursdóttir iðjuþjálfi veitir allar nánari upplýsingar í gegnum tölvupóst, saeunn@slf.is eða í síma 535-0910.
Áhugasamir eru hvattir til þess að sækja um sem fyrst.