Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Askasleikir er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í ár. Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) hannaði óróann og Ásta Fanney Sigurðardóttir, handhafi Ljóðstafsins í ár, samdi kvæði um kappann.
Askasleikir mun prýða greinar Óslóartrésins á Austurvelli en kveikt verður á ljósum trésins næstkomandi sunnudag, 3. desember, kl. 16.
Þetta er í tólfta sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út jólaóróann. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið með því að skreyta Óslóartréð með óróa ársins. Allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til Æfingastöðvarinnar en þangað sækja börn og ungmenni með frávik í hreyfingum og þroska þjónustu. Þau fá aðstoð sjúkra- og iðjuþjálfa við að bæta færni sína í leik og starfi svo þau geti þroskast, dafnað og notið lífsins.
Sala Askasleikis fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 6. - 20. desember og í glænýrri netverslun Styrktarfélagsins: http://www.jolaoroinn.is. Askaleikir kemur í gjafaöskju og honum fylgir bæklingur með ljóði eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Nótt nr. 17
heyr! heyr! heyrist hvíslað
hann sleikir upp upp upp til agnanna
tæmir alla askana
betri uppvaskara
er hvergi hægt að finna
* * *
Glerrósir uxu hægt
upp glugga nr. tungl
hvísluðu á milli sín í stillu
er þetta hann?
töldu niður
- daga
- mín
- sek
til nætur nr. 17
hvað eruð þið að gera?
spurði ég
við erum að fylgjast með slefi í niðdimmu
það drýpur úr vikunum
það lekur úr askinum
frystir kristöllum
í taumunum
* * *
Norðurslæður læddust
niður náttþak
dönsuðu ljósi á milli sín í stillu
þarna er hann!
töldu upp litina
- gult
- grænt
- blátt
þar til allur himininn leiftraði
hvað eruð þið að gera?
spurði ég
við erum að lýsa upp nóttina fyrir rúðurósir
svo þær sjái
askana
galtóma
slefaða
sleikta
ístauma
niður
hökuna
svo þær sjái
kettina
svekta
hundana
gelta
á svein í makindum
sleikjandi ask
* * *
heyr! heyr! heyrist hvíslað
hann sleikir upp upp upp til agnanna
tæmir alla askana
betri uppvaskara
er hvergi hægt að finna
- Ásta Fanney Sigurðardóttir