Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Gunnhildur Jakobsdóttir iðjuþjálfi var gestur Spjallsins með Góðvild á dögunum en viðtal við hana var birt á Vísi í dag.Gunnhildur er menntuð í notkun dýra við íhlutun og undanfarna mánuði hefur hún tekið á móti börnum í iðjuþjálfun ásamt tíkinni Skottu sem er fyrsti vottaði þjónustuhundur á Íslandi. Í viðtalinu segir Gunnhildur frá því hvernig megi nota hunda og hesta við iðjuþjálfun og talar um starfsemi Æfingastöðvarinnar og stöðu iðjuþjálfunar hér á landi.
Gunnhildur og tíkin Skotta eru fyrsta vottaða iðjuþjálfunarteymið á Íslandi. Gunnhildur segir Skottu vera ákveðinn ísbrjót. „Það er sammannlegt að við leitum að samskiptum við dýrin,“ segir Gunnhildur. „Það að hafa dýr í rýminu þar sem þjálfun fer fram veitir ákveðna öryggiskennd, svo lengi sem þú ert ekki hræddur við hunda, og hundurinn treystir eigandanum og þá eru kannski meiri líkur á að barnið treysti þjálfaranum.“
Verkefnin verða samskipti og leikur
Gunnhildur segir auðvelt að finna iðjutengd verkefni sem tengjast hundinum. Verkefni sem reyna á vitræna færni, framkvæmdafærni, röðun, „og allt er þetta af því að barnið er að gera þetta fyrir hundinn. Það er ekki að gera þetta fyrir mig til að klára eitthvað verkefni heldur verða þetta samskipti og leikur.“
Gunnhildur segir að mörg af þeim börnum sem koma í iðjuþjálfun hafi ekki sérstakan áhuga á því sjálf, yfirleitt er það að frumkvæði foreldranna. Með þessari aðferð verða þau meiri þátttakendur í þjálfuninni og upplifi þjálfunina þannig að þau sjálf hafi í raun verið með hundaþjálfun.
Gerði lokaverkefni um þátttöku barna
Gunnhildur hefur alltaf verið áhugasöm um dýr. Þegar hún ákvað að læra iðjuþjálfun ætlaði hún að reyna að tengja það áhuga sínum á hundum. Það gerðist þó ekki í náminu því hún fékk tækifæri á að vinna spennandi rannsókn um þáttökuumhverfi og lífsgæði fatlaðra barna með Snæfríði Þóru Egilsson. Lokaverkefni Gunnhildar snerist um að kortleggja hverju börnin tóku þátt í og að hve miklu leyti þau upplifðu sig sem þátttakendur.
Gunnhildur segir að markmið Æfingastöðvarinnar sé að efla þátttöku barna. „Við vitum að þátttaka í fjölbreyttum athöfnum er góð fyrir heilsu og velferð og bara mannréttindamál. Það er svo margt sem börnin þurfa að taka sér fyrir hendur eins og það að vera nemi, vera vinur að taka þátt í tómstundum og íþróttum. Þar á bak við eru ýmsar kröfur sem eru gerðar til þeirra og stundum eru kröfurnar bara það miklar að þau annaðhvort geta ekki tekið þátt í athöfnunum eða þau forðast þær.“ Á Æfingastöðinni fá börn aðstoð við að bæta færni sína ýmist með beinni íhlutun, beinni þjálfun, ráðgjöf eða stuðning. Á Æfingastöðinni er líka mikil teymisvinna og fjölbreytt hópþjálfun.
Hægt að nota hesta og hunda í sálfélagslegum tilgangi
Hestar hafa verið notaðir við sjúkraþjálfun á Æfingastöðinni í 15 ár en Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfari hafði frumkvæðið af því. Gunnhildur hefur einnig tekið þátt í meðferðum með hesta. Þá er hesturinn notaður til að efla setjafnvægi, jafnvægi, styrk og það getur líka verið mjög auðvelt að fara í samskipti og áhugahvötina. Það er auðvelt að sjá hvernig hægt er að nýta þessa meðferð í sjúkraþjálfun. Gunnhildur segir möguleikana líka verið mikla félagsleg t.d. tjáskipti, að segja dýrinu að fara af stað. „Það verður því hvati til að tjá sig“.
Gunnhildur bendir á að hægt sé að nota hesta í sálfélagslegum tilgangi. „Þú verður að vera með rólega og blíða aðkomu að hestinum og ekki vera of frakkur og gefa honum færi á að koma og kíkja á þig.“ Hún segir þetta líka eiga við um hundana. „Hundurinn þarf að horfa í augun á þér til þess að tala við hana, þú þarft að ná sambandi og þú þarft að segja henni skýrt hvað þú vilt með einfaldri hreyfingu en ekki með hendurnar út um allt, þannig þú þarft að kjarna þig og þá hlustar hún og gerir.“
Hér eru myndbönd þar sem sýnt er frá hvernig þjálfun með Skottu gæti farið fram.
Gunnhildur segir að aðgengi að iðjuþjálfum mætti vera betra. Til þess að sækja þjónustu hjá Æfingastöðinni þarf að fá beiðni frá lækni. Iðjuþjálfa skorti líka víða í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu á meðan að víða á landsbyggðinni eru iðjuþjálfar í grunnskólum.
Smelltu hér til að hlusta á viðtalið í heild