Karfan þín

Karfan er tóm.

Eftirminnilegast að fara upp á Mýrdalsjökul

Signý og Katla á Mýrdalsjökli
Signý og Katla á Mýrdalsjökli

„Það var ómetanlegt að fá að hitta aðra foreldra í svona góðu umhverfi,“ segir Kristrún Sigurjónsdóttir um dvölina í sumarbúðum fyrir fjölskyldur fatlaðra barna í Vík í Mýrdal en hún fór þangað ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Signýju Hermannsdóttur, syninum Kára 5 ára og dótturinni Kötlu 2 ára.

Alls tóku átján fjölskyldur þátt í sumarbúðunum en verkefnið var styrkt af félagsmálaráðuneytinu sem viðbrögð við Covid-19. Signý og Kristrún fengu ekki langan tíma til að ákveða hvort fjölskyldan ætti að skrá sig enda var ráðist í verkefnið með mjög skömmum fyrirvara. „Við fengum dagskrána senda með mjög stuttum fyrirvara. Okkur leist mjög vel á hana, við vorum ekki með nein plön þannig við ákváðum bara að skella okkur. Við vissum í raun ekkert hvað við vorum að fara út í,“ segir Signý.

Þær segjast ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. „Þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun,“ segir Signý. Dvölin stóð yfir frá mánudegi til föstudags og dagskráin var þannig að fyrir hádegi var hópnum skipt upp þannig að foreldrar voru saman og börnin saman. „Það var mjög fróðlegt fyrir okkur foreldrana og skemmtilegt og þau skemmtu sér konunglega. Börnin fóru bara með krökkunum úr Reykjadal og ég held að þau hafi notið sín alveg rosalega með þeim,“ segir Signý.

Starfsfólk Reykjadals var foreldrunum innan handar, annaðist börnin og sá um afþreyingu. Eftir hádegi var fjölskyldan saman og farið var í fjölbreyttar ferðir enda margt hægt að gera í nágrenni Víkur. Atli Lýðsson verkefnastjóri sumarbúðanna sá um þróun og skipulag þeirra. Hann hefur mikla reynslu í málefnum fatlaðra, er fyrrum framkvæmdastjóri Fjölmenntar, sat í framkvæmdaráði Styrktarfélagsins og hann á fatlaða dóttur. Síðastliðin ár hefur Atli starfað sem leiðsögumaður og átti því auðvelt með að setja saman fjölbreytta og spennandi dagskrá.

Signý segir að það eftirminnilegasta í dvölinni hefði verið að fara upp á Mýrdalsjökul. Þangað var farið með allan hópinn. „Það var rosalega skemmtilegl upplifun fyrir alla,“ segir Signý.

Atli lagði áherslu á jafningjafræðslu sem Signý og Kristrún segja að hafi verið gott. „Okkur fannst spennandi að hitta aðra foreldra í þessum kringumstæðum og bara hafa gaman,“ segir Kristrún. Signý tekur undir það: „Við fengum bæði innsýn inn í þeirra líf og góð ráð og svo var bara rosalega gaman að hanga með fólki sem er að ganga í gegnum það sama og við.“

 

Signý, Katla (2 ára), Kári (5 ára) og Kristrún.