Karfan þín

Karfan er tóm.

Hefur safnað rúmum tveimur milljónum vegna útgáfu plötunnar Bjarta Bros

Elva Rós, Viktoría og Ísabella, afastelpur Óla, afhenda forsetahjónunum plötuna Bjarta Bros.
Elva Rós, Viktoría og Ísabella, afastelpur Óla, afhenda forsetahjónunum plötuna Bjarta Bros.

Óli Jóns, fyrrum handboltakappi og upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, hefur safnað rúmlega tveimur milljónum króna í tilefni af útgáfu hljómplötu sinnar Bjarta Bros. Óli ákvað að í stað þess að selja plöturnar myndi hann gefa þær og hvetja fólk til þess að leggja inn á styrktarreikning. „Markmiðið með plötunni er að afla fjár til að styrkja fötluð börn og ungmenni sem hafa ekki möguleika á að gera allt það sama og jafnaldrar þeirra með eðlilega hreyfigetu,“ segir Óli en hann stendur sjálfur fyrir öllum tilkostnaði vegna útgáfu plötunnar.

 „Mikilvægt að fötluð börn hafi aðgang að aðstöðu og búnaði “

Óli ákvað að styrkja Styrktarfélagið og Reykjadal því hann þekkir sjálfur hvað hjálpartæki geta skipt miklu máli. „Ástæða þess að hugur minn er upptekinn af þessum barna- og unglingahópi er sá að ég á litla dótturdóttur í Þýskalandi sem er með CP tvenndarlömun. Ég þekki því af eigin raun hvað það er mikilvægt að fötluð börn hafi aðgang að aðstöðu og búnaði til að geta leikið sér eins og ófötluð börn,“ segir Óli. Elva Rós tók sjálf þátt í söfnuninni en það kom í hennar hlut að afhenda forsetahjónunum og forsætisráðherra plötuna, Bjarta Bros.

Úrbætur á heitum potti í Reykjadal

Söfnunarfénu verður varið í endurbætur á heitum potti í Reykjadal auk þess sem keypt verður ný segllyfta til notkunar í sumarbúðunum. Þá verður unnið að því að bæta aðstöðu og aðgengi við sjúkraþjálfun á hestbaki fyrir hreyfihömluð börn og ungmenni.  

Söfnunin stendur enn yfir og þeir sem vilja styrkja málefnið geta lagt inn á rkn. 0526-04-250210 kt. 630269-0249

   
   

Óli Jóns og fjölskylda á Bessastöðum ásamt forsetahjónunum og fulltrúa Styrktarfélagsins.