Karfan þín

Karfan er tóm.

Hinsta kveðja til Gunnars Karls

Gunnar Karl fór 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 2017 og safnaði áheitum fyrir Reykjadal.
Gunnar Karl fór 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 2017 og safnaði áheitum fyrir Reykjadal.

Í dag kveðjum við kæran vin í hinsta sinn. Gunnar Karl okkar allra besti, lést í vikunni og skilur eftir sig stórt skarð í hjarta Reykjadals.

Gunnar Karl á langa sögu í Reykjadal. Hann kom sem ungur drengur í sumardvöl og varð strax vinamargur. Þegar Gunnar Karl stundaði nám í Háskóla Íslands við tómstunda- og félagsmálafræði kom hann í starfsnám til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Við lærðum margt af honum og reynslu hans í Reykjadal og varð úr að hann sá um fræðslu til starfsmanna á starfsmannanámskeiði Reykjadals.

Gunnar Karl stóð fyrir stórum fjáröflunum fyrir Reykjadal í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið. Hann var duglegur að koma fram í viðtölum og vekja athygli á starfseminni sem skilaði sér ótrúlega vel. Enn fleiri vinir og velunnarar bættust í hópinn.

Sumrin 2018 og 2019 starfaði Gunnar Karl í Reykjadal. Við erum heppin með vináttu hans og velvild gagnvart starfseminni. Hann var raunveruleg fyrirmynd í starfinu. Gestir Reykjadals litu upp til hans og treystu honum. Vinsældir hans voru miklar í starfinu og hann náði vel til allra.  Hann var alltaf til í að taka þátt og lagði sig fram við að gera dvöl gestanna sem allra eftirminnilegasta. Það er nefnilega ótrúlega skemmtilegt að fá að „sturta“ starfsmanni úr hjólastólnum beint ofan í sundlaug í öllum fötunum og blanda ógeðsdrykk sem er hellt  í sig með tilheyrandi látbragði. Gunnar Karl var hreinlega alltaf til í allt. Jákvæðni hans smitaði út frá sér.

Það er erfitt að koma hlutunum í orð þegar komið er að kveðjustund. Við munum sakna Gunnars Karls alveg óendalega mikið. Við munum halda minningu hans á lofti og minnast allra samverustundanna og tileinka okkur hans einstaka hugarfar.

Við sendum fjölskyldu og vinum Gunnars Karls innilegar samúðarkveðjur.

 

Í dag kveðjum við kæran vin í hinsta sinn. Gunnar Karl okkar allra besti, lést í vikunni og skilur eftir sig stórt skarð...

Posted by Reykjadalur on Laugardagur, 6. mars 2021