Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Kærleikskúla ársins 2021 sýnir sólargang eins árs Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. Þetta er nítjánda Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út en markmiðið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Sala Kærleikskúlunnar fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 9. - 23. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra http://www.kaerleikskulan.is
Kúlan sýnir dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur
Sirra Sigrún Sigurðardóttir hefur lengi tekið virkan þátt í íslensku listalífi en hún er einn af stofnendum Kling & Bang. Sirra lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og útskrifaðist með meistaragráðu frá School of Visual Arts í New York 2013. Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan vangaveltum um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau sýna oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. Kærleikskúla ársins sýnir sólargang eins árs. Svona lýsir hún verkinu:
Eitt ár
Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug. Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.
- Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Kærleikskúlan kemur í verslanir um land allt fimmtudaginn 9. desember.
Söluaðilar kúlunnar taka enga þóknun fyrir söluna. Því rennur allur ágóði af sölu hennar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. Í Reykjadal er börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar gefið tækfæri til að skapa ógleymanlegar minningar.