Karfan þín

Karfan er tóm.

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar handhafi Kærleikskúlunnar Ūgh & Bõögâr

Lilja Baldvinsdóttir og Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar afhenda Önnu Kristinsdóttir M…
Lilja Baldvinsdóttir og Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar afhenda Önnu Kristinsdóttir Mannréttindastjóra Kærleikskúluna fyrir hönd Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hlýtur Kærleikskúlu ársins, Ūgh & Bõögâr, eftir Egil Sæbjörnsson fyrir mikilvægt framlag í þágu fatlaðs fólks. Þetta er í fimmtánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út Kærleikskúluna en allur ágóði af sölunni rennur til sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.

Mannréttindaskrifstofan sögð hafa sýnt mikilvægt fordæmi

Árlega velur Styrktarfélagið handhafa Kærleikskúlunnar í viðurkenningarskyni fyrir störf í þágu fatlaðs fólks. Að þessu sinni hefur stjórn Styrktarfélagsins ákveðið að veita Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar Kærleikskúluna vegna samkomulags sem skrifstofan gerði við Landssamtökin Þroskahjálp vegna notendaráðs fatlaðs fólks. Það er mat stjórnarinnar að Mannréttindaskrifstofan hafi með samningnum sýnt mikilsverðan skilning og vilja til þess að tryggja að raddir fólks með þroskahömlun heyrist og að það fái þannig raunverulegt tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið. Það er mikilvægt atriði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að haft sé samráð við fatlað fólk þegar taka á ákvarðanir um stöðu þeirra með viðeigandi aðlögun. Það er því mat stjórnar Styrktarfélagsins að Mannréttindaskrifstofan hafi með samkomulaginu sýnt mikilvægt fordæmi sem geti orðið sveitarfélögum til fyrirmyndar og leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að því að uppfylla  ákvæði um samráð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri veitti kúlunni viðtöku fyrir hönd Mannréttindaskrifstofunnar en Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður Þroskahjálpar flutti ávarp og fékk Lilju Baldvinsdóttur, sem kemur í Reykjadal, til að aðstoða sig við að afhenda kúluna. Meðlimir í Notendaráði fatlaðs fólks í Reykjavík fengu einnig kúlu fyrir sín mikilvægu störf.

Tröllin Ūgh og Bõögâr sitja föst í Kærleikskúlunni

Egill Sæbjörnsson hannar Kærleikskúlu ársins í samvinnu við ímyndaða vini sína, tröllin Ūgh og Bõögâr. Egill var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í ár en þar voru tröllin Ūgh og Bõögâr í aðalhlutverki. Egill segir að tröllin hafi verið mjög áhugasöm um að aðstoða hann við gerð Kærleikskúlunnar og að Ūgh og Bõögâr hafi helst viljað gera kúlurnar sjálfir. „Þeir sögðu að þeir væru miklu betri í þessu en ég. Þeir urðu æstir og rifust síðan svo mikið um hvað ætti að vera á kúlunum að þeir festust inn í þeim.“ Egill segir að það sé best að fara varlega með kúlurnar og passa að þær brotni ekki. „Þá gætu þessi gráðugu tröll sloppið út og kannski eyðilagt jólin fyrir manni.“

Egill býr og starfar í Berlín og gat ekki verið viðstaddur athöfnina en sendi þessa kveðju

 Allur ágóði rennur til Reykjadals

Kærleikskúlan fór í sölu í dag, miðvikudaginn 6. desember, í verslunum um land allt og salan stendur yfir til 20. desember. Hér má sjá lista yfir alla söluaðila. Einnig er hægt að kaupa kúluna í nýrri netverslun www.kaerleikskulan.is

Söluaðilar kúlunnar leggja söfnuninni mikilvægt lið með því að selja kúluna án nokkurrar þóknunar. Því rennur allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. Í Reykjadal koma fötluð börn og ungmenni alls staðar að af landinu. Dvölin í Reykjadal er börnunum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg en mikið er lagt upp úr því að skapa ævintýri og ógleymanlegar minningar hjá þeim gestum sem þar dvelja.

 

Fjölbreytt safn listaverka

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og er Ūgh & Bõögâr því fimmtánda kúlan. Úr er orðið fjölbreytt safn listaverka eftir marga af okkar þekktustu listamönnum. Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir og Sigurður Árni Sigurðsson. Hægt er að nálgast eldri Kærleikskúlur í netversluninni: www.kaerleikskulan.is