Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Már Gunnarsson sundkappi og tónlistarmaður er handhafi Kærleikskúlunnar 2019. Már er framúrskarandi fyrirmynd og hefur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra ákveðið að veita honum Kærleikskúluna í ár. Ólöf Nordal listakona gerir Kærleikskúluna sem heitir SÓL ÉG SÁ. Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til Reykjadals, sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni.
Blindan engin hindrun
Árlega velur stjórn Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar. Hún er veitt framúrskarandi fyrirmynd fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Már Gunnarsson er tvítugur afreksmaður í sundi og tónlistarmaður. Það er álit stjórnar Styrktarfélagsins að Már sé einstök fyrirmynd. Hann er blindur en lætur það ekki hindra sig í að ná markmiðum sínum. Þrátt fyrir ungan aldur er Már afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í baksundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra. Már sló tíu Íslandsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í september auk þess sem hann vann til bronsverðlauna í 100 metra baksundi. Þá náði hann framúrskarandi árangri á íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í 25 metra laug en hann var þrisvar á tíma sem er undir núgildandi heimsmeti. Már setur markið hátt, hann stefnir á að komast á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó árið 2020 og ætlar sér að vinna til gullverðlauna í 100 metra baksundi. Már er einnig tónlistamaður. Nýverið sópaði hann að sér viðurkenningum á Söngvakeppni Lionsklúbbsins fyrir blinda sem haldin var í Póllandi. Már var í þriðja sæti í keppninni en hann sló í gegn meðal áheyrenda og var valinn vinsælasti keppandinn. Að auki fékk hann verðlaun frá Félagi fréttamanna í Póllandi. Már er ekki bara einstök fyrirmynd fyrir íþróttmenn með fötlun, heldur er jákvæðni hans og staðfesta eftirtektaverð og eitthvað sem allir geta tileinkað sér.