Karfan þín

Karfan er tóm.

Mastersnemar í HÍ safna fyrir Reykjadal

Hópur öflugra mastersnema í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur sett af stað söfnunarátakið "Upplifun fyrir alla" þar sem ætlunin er að safna fyrir byggingu viðbótarhúsnæðis í Reykjadal. Sumarið 2014 var Sumarlandi, sumardvöl Styrktarfélagsins á Stokkseyri lokað í hagræðingarskyni og starfsemin öll sameinuð í Reykjadal. Sú hagræðing gerði það að verkum að biðlistar í sumardvölina í Reykjadal tóku að lengjast og nú er svo komið að bið eftir dvöl, fyrir þá sem ekki hafa komið áður er allt að tveimur árum.

Elmar Hallgríms Hallgrímsson lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stýrir námskeiðinu sem ber heitið "Samvinna og árangur".  Nemendum var í upphafi skipt í fimm hópa en 30 meistaranemar eru í faginu. Hverjum hópi í verkefninu var úthlutað einum tengilið úr atvinnulífinu sem aðstoðuðu nemana við að útfæra hugmyndir sínar. Tengiliðirnir eru þær Ásthildur Otharsdóttir frá Marel, Steinunn Bjarnadóttir frá Íslandsbanka, Margrét Sveinsdóttir frá Arion banka, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir frá Landsbankanum og Ingunn Elín Sveinsdóttir frá Skeljungi.

Hóparnir hafa skipulagt fjölmarga viðburði  sem fara flestir fram í þessari viku og næstu, svo sem bíósýningu í Háskólabíói, fjöltefli í Smáralind, förðunarnámskeið, styrktarsöfnun á Facebook, Bingó og fleira.

Til þess að fylgjast með þeim viðburðum sem eru í gangi hverju sinni bendum við áFacebooksíðu viðburðarins og svo munum við að sjálfsögðu einnig vera með puttann á púlsinum á Facebooksíðu Reykjadals.

Við þökkum þessu magnaða fólki fyrir þetta ómetanlega framtak og öllum þeim sem þegar hafa lagt sitt af mörkum til söfnunarinnar! Fyrir þá sem vilja láta fé af hendi rakna bendum við á neðangreind söfnunarnúmer:

901-5001 fyrir 1000 krónur 
901-5002 fyrir 2000 krónur  
901-5005 fyrir 5000 krónur

Einnig er hægt að leggja til frjáls framlög á reikning:  0137-26-10656, kt:630114-2410.