Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Ósamhverfa í hálshreyfingum ungbarna er ekki óalgeng. Ef gripið er inn í nógu snemma er í flestum tilfellum hægt að leiðrétta ósamhverfu með viðeigandi örvun. Í nýjum fræðslubæklingi sem nokkrir sjúkraþjálfarar Æfingastöðvarinnar hafa gefið út er að finna leiðbeiningar um æfingar og stöður sem mælt er með að setja ungbörn í.
Breytilegar stöður draga úr líkum á ósamhverfu eða
einhliða hreyfimynstrum og því að barnið velji sér „sterkari
hlið“. Ef barnið liggur og horfir meira til annarrar hliðar er mikilvægt að byrja strax að æfa barnið í að horfa í hina áttina þannig að hreyfingar verði samhverfar. Í bæklingnum er farið yfir þetta og lýst í myndum og máli hvernig gott er að örva hreyfiþroska ungbarna. Bæklingurinn er hugsaður sem forvörn og er ætlaður öllum þeim foreldrum og aðstandenum ungabarna.
Sjúkraþjálfarar Æfingastöðvarinnar sinna ungbörnum sem eru með ósamhverfu í hálshreyfingum, oftast kallað torticollis. Fjöldi meðferða sem börnin þurfa á að halda er misjafn, sum koma í nokkur skipti, önnur mun oftar.
Birna Björk Þorbergsdóttir, Guðrún Ágústa Brandsdóttir og Guðbjörg Eggertsdóttir sjúkraþjálfarar skrifuðu bæklinginn en þær eru allar reynslumiklar í því að sinna ungbörnum með ósamhverfu. Bæklingurinn var unninn með hliðsjón af bæklingnum „En veiledning til variert håndtering og stimulerende lek for spedbarnet“ (Oslo kommune, bydel Grünerløkka).