Karfan þín

Karfan er tóm.

Pottaskefill - jólaórói SLF 2016

Pottaskefill í túlkun Signýjar Kolbeinsdóttur og Snæbjörns Ragnarssonar.
Pottaskefill í túlkun Signýjar Kolbeinsdóttur og Snæbjörns Ragnarssonar.

Pottaskefill er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2016!
Signý Kolbeinsdóttir, vöruhönnuður og einn eigenda Tulipop, og Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, túlka sveininn. Signý með glæsilegri hönnun og Bibbi af sinni einstöku ritsnilld. Pottaskefill, sem er ellefti óróinn í þessari glæsilegu seríu, mun prýða Óslóartréð á Austurvelli en ljósin verða tendruð 27. desember, fyrsta sunnudag í aðventu. 

Sala Pottaskefils hefst 2. desember og rennur allur ágóði af sölu hans til Æfingastöðvarinnar.

Nánari upplýsingar um sölustaði o.fl. á www.jolaoroinn.is.

 

POTTASKEFILL

Sannlega var piltur nefndur Pottasleikir,
púar stóran njóla sem hann ákaft reykir.
Við hann eru álfar, menn og vargar smeykir.
Brýst hann inn og bælir þvottinn,
blótar, nú skal finna pottinn.
Nálægð hans er þung og þefill.
Þetta er hann Pottaskefill.

Trúlega var pjakkur nefndur Pottasleikir,
plokka nef hans hanskalausir fingur bleikir.
Afgangana hráa vill og aldrei steikir.
Niðamyrkur, nærri dottinn,
nálgast eldstæðið og pottinn.
Þekur búkinn þreyttur refill.
Þetta er hann Pottaskefill.

Fjálglega var púki nefndur Pottasleikir,
pestar-, saur- og svitalykt af honum feykir,
allir sem þar standa fyrir enda veikir.
Tregur og af tröllum sprottinn,
tekur stökk og finnur pottinn.
Þar er ekki þokkasnefill.
Þetta er hann Pottaskefill.

Ranglega var pungur nefndur Pottasleikir,
prettir eru iðja hans og helstu leikir,
eltir uppi gamalær og í þeim kveikir.
Höggvinn er í hengla spottinn,
hleypur svo á braut með pottinn.
Þröngar buxur, þæfður trefill.
Þetta er hann Pottaskefill.

                         Snæbjörn Ragnarsson