Karfan þín

Karfan er tóm.

Reykjadalur fær sérstakan afmælisstyrk KSGK

Kvenfélagssamband Gullbringu – og Kjósarsýslu varð 90 ára gamalt á dögunum. Kvenfélagskonur fögnuðu þessum áfanga á aðalfundi sínum laugardaginn 2. mars síðastliðinn en gestgjafar voru Kvenfélag Grindavíkur, sem var einmitt mjög viðeigandi þar sem þetta var þá einnig í nítugasta sinn sem að Kvenfélag Grindavíkur hýsti viðburð innan félagssambandsins. Önnur aðildafélög eru Kvenfélag Keflavíkur, Kvenfélagið Fjóla í Vogum, Kvenfélagið Gefn í Garði, Kvenfélagið Hvöt í Sandgerði, Kvenfélag Garðabæjar, Kvenfélag Áltaness, Kvenfélag Mosfellsbæjar, Kvenfélag Kjósarhrepps og Kvenfélagið Seltjörn á Seltjarnarnesi. Alls eru 616 konur í félögunum tíu.

 

Kvenfélögin styrkja reglulega nærsamfélögin og á síðasta ári veittu þau samanlagt styrki til ýmissa verkefna að upphæð 7,5 milljónum. Í sérstöku tilefni af 90 ára afmæli KSGK ákváðu kvenfélögin að veita sumarbúðunum í Reykjadal 900 krónur fyrir hverja félagskonu, en andvirði þeirrar styrkveitingar verður notað til kaupa á tækjum í samráði við forstöðumann Reykjadals.

Um kvöldið var síðan haldinn veglegur afmælisfögnuður þar sem félagskonur fögnuðu saman, var margt um manninn og góðar veitingar. Hægt er að lesa meira um viðburðinn hér.

 

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra þakkar félagskonum KSGK kærlega fyrir styrkinn og óskum við þeim innilega til hamingju með árin 90.