Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Annað árið í röð stendur Palli Líndal fyrir góðgerðargolfmótinu Palla Open á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Á síðasta ári safnaði hann rúmum tveimur milljónum sem hann færði Reykjadal og Hlaðgerðarkoti. Palli segir þakklætið hafa drifið hann áfram til að endurtaka leikinn. „Það var mín upplifun eftir mótið í fyrra að það væru allir svo þakklátir og viðhorfið gagnvart viðburðinum var svo jákvætt. Það er líka gott að finna að maður geti gefið eitthvað til baka til góðra mála í nærumhverfinu hér í Mosfellsbæ,“ segir Palli. „Mér fannst líka gaman að finna hvað allir voru tilbúnir að taka þátt í verkefninu, veita aðstoð, gefa vinninga, styrkja málefnin og gera allt til að láta hlutina ganga upp,“ segir hann.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar lánar Hlíðavöll án endurgjalds, líkt og í fyrra, og því rennur mótsgjald óskipt í söfnunina. Palli vonast til þess að mótið sé komið til að vera. „ Við vorum varla búin að afhenda síðasta vinninginn í fyrra þegar við fórum að ræða skipulagningu á næsta góðgerðarmót sem er orðið raunverulegt,“ segir Palli. „Nú vildum við styrkja einn aðila og gera það betur og afmarka verkefnið við eitthvað ákveðið. Því var niðurstaðan að styrkja Reykjadal og verkefnið væri að kaupa útivistar hjólastóla fyrir börnin,“ segir hann.
Mótið fer fram laugardaginn 11. júní og skráning stendur yfir hér á Golfboxinu en aðeins örfáir rástímar eru eftir. Þar má einnig sjá þá fjölmörgu glæsilegu vinninga sem styrktaraðilar mótsins hafa gefið. Hægt er að leggja söfnuninni lið með millifærslu:
116 - 26 - 329
kt. 650581-0329