Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Á laugardaginn stendur til að ahenda Reykjadal fjóra útivistarhjólastóla sem safnað var fyrir á góðgerðargolfmótinu Palla Open sem Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Palli Líndal stóðu fyrir. Mótið gekk vonum framan og var eitt það fjölmennasta sem haldið var á suðvesturhorninu í sumar. Alls söfnuðust 2,5 milljónir króna í tengslum við mótið sem hefur verið varið í kaupa á útivistarhjólastólunum.
Þetta er annað árið í röð sem mótið er haldið á Hlíðavelli en Golfklúbbur Mosfellsbæjar lánar aðstöðuna og sér um umgjörð mótsins án nokkurrar þóknunar. „Þetta er stærsta opna mótið sem við höldum í dag, rétt rúmlega 200 þátttakendur þannig að það er mikið líf og fjör á vellinum og því mikið sem þarf að huga að. Starfsmenn klúbbsins sem og sjálfboðaliðar sinna þeim störfum með mikilli prýði,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
En hvers vegna að halda mót sem þetta?
„Við erum íþróttafélag í Mosfellsbæ og það skiptir miklu máli fyrir okkur að styrkja okkar nærumhverfi. Við erum stórt íþróttafélag með rúmlega 2000 meðlimi og það hefur gengið vel hjá okkur undanfarin ár. Það er því gaman að geta haldið golfmót og styrkt svona þarft og gott málefni eins og sumarbúðirnar í Reykjadal eru og svo hafa kylfingar tekið þessu móti vel sem sést best á því að þetta er eitt fjölmennasta opna mótið sem haldið er hér á suðvesturhorninu. Í ár söfnuðust rétt um 2, 5 milljónir krónar sem er frábært og við erum þakklát öllum þeim sem koma að þessu og aðstoða okkur við mótið og þá sérstaklega alla kylfingana sem taka þátt og gera þetta mót að veruleika,“ segir Ágúst og segir klúbbinn ætla að halda fleiri mót.
Skiptir máli að taka þátt í verkefni sem þessu?
„Já, það skiptir okkur miklu máli og þetta mót er klárlega komið til að vera hjá okkur. Við viljum sýna samfélagslega ábyrgð í verki í öllu okkar starfi og þetta er einn liður í því,“ segir Ágúst
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?
„Ég vil þakka Páli Líndal fyrir sinn þátt í þessu, hann er ekki lítill. Þetta byrjaði sem létt hugmynd að golfi og skemmtun sem endaði í svona líka stóru og skemmtilegu golfmóti. Hann safnar boltum allt árið sem við seljum á mótinu og þær tekjur renna einnig óskiptar til málefnisins (tæplega 5000 boltar í ár). Svo er hann óþrjótandi í að safna vinningum, hann á mikinn heiður skilið fyrir sinn þátt í þessu og við höfum átt mjög gott samstarf með honum þessi tvö ár og vonandi verður það þannig áfram.