Karfan þín

Karfan er tóm.

Söfnun Vina Reykjadals gengur framar björtustu vonum

Vinir Reykjadals er hópur stuðningaðila sem styrkja starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal með mánaðarlegu framlagi. Söfnun styrktaraðila hófst nú í mars og hefur gengið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum bæði þakklát og stolt af að sjá hversu margir eru tilbúnir til að styrkja starfið í Reykjadal með þessum hætti.
 
Vinir Reykjadals er traust bakvarðasveit sem gerir okkur kleift að gefa gestum okkar tækifæri til þess að rækta vináttu og upplifa ævintýri í öruggu og nærandi umhverfi í Mosfellsdalnum. Á hverju ári koma um 250 börn og ungmenni á aldrinum 8-21 árs í Reykjadal og eignast minningar um ógleymanlega dvöl. Við höfum það að leiðarljósi að ekkert er ómögulegt og í Reykjadal er fötlun ekki hindrun. Markmið okkar er efla starfið enn frekar svo við getum boðið öllum börnum sem þess óska að dvelja hjá okkur. Mörg börn þurfa að bíða lengi eftir að komast að í Reykjadal því biðlistinn er langur og draumur okkar er að útrýma honum.
 
Stuðningur Vina Reykjadals er dýrmætur. Hann gerir það að verkum að við getum við byggt starfið, aðbúnað og aðstöðu upp til lengri tíma og tryggt að þau börn og ungmenni sem hjá okkur dvelja geti notið sín á eigin forsendum, skemmt sér í góðra vina hópi og tekið með sér dýrmætar minningar um ævintýralega dvöl.
 
www.vinirreykjadals.is er svo sérstök vefsíða sem sett var á laggirnar vegna söfnunarátaksins. Markmiðið er að þarna séu fréttir af starfseminni og þar spila myndir af gleði og ævintýrum í Reykjadal stórt hlutverk.
 
Við sendum vinum okkar bestu þakkir og kveðjur. Takk fyrir traustið. Takk fyrir að vera vinur Reykjadals.