Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Við kynnum með stolti Kærleikskúlu ársins 2016, SÝN, eftir Sigurð Árna Sigurðsson. Salan hefst föstudaginn 2. desember. Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna með því að efla starfsemi sumarbúðanna í Reykjadal.
Sameinar tvo heima með því að gata yfirborðið
Sigurður Árni segir að á endalausu yfirborði kúlunnar séu tvær hliðar, sú ytri og hin innri. Með því að gata kúluna mætist tveir heimar. „Þegar ég vann að kærleikskúlunni og horfði á hana utan frá sá ég fyrir mér heim frá mínu sjónarhorni en um leið varð mér ljóst að inni í kúlunni er annar heimur sem horfði á minn heim frá öðru sjónarhorni. Með því að gata yfirborðið fannst mér ég sameina þessa tvo heima og nálgast það sem ég þekkti ekki áður,“ segir Sigurður Árni um hönnun sína. „Hugmynd verksins og kærleikur kúlunnar býr í gatinu. Í opinu er möguleiki á að tengjast öðrum heimi, setja sig í spor annarra og öðlast víðara sjónarhorn – nýja sýn,“ segir hann.
Verk Sigurðar gjarnan á mörkum þess áþreifanlega
Sigurður Árni Sigurðsson er fæddur á Akureyri 1963. Hann stundaði nám í École Nationale Supérieure d‘Arts de Paris-Cergy og Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París að loknu námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hann hefur búið og starfað jöfnum höndum á Íslandi og í Frakklandi og sýnt verk sín víða um heim. Verk hans eru gjarnan á mörkum þess áþreifanlega, kunnugleg form eða hlutir taka á sig nýja og óraunverulega mynd í rými ljóss og skugga – málverk verða þrívíð og skúlptúrar tvívíðir. Verk eftir Sigurð Árna er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins sem og í opinberum og einkasöfnum í Evrópu. Af stærri opinberum verkum má nefna útilistaverkin Sólöldu við Sultartangavirkjun og L´Eloge de la Nature í bænum Loupian í Frakklandi. Sigurður Árni, sem er einn fremsti listamaður þjóðarinnar, hefur hlotið fjölda viðurkenninga á ferli sínum. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1999 og árið 2000, þegar Reykjavík var menningarborg Evrópu, var verk eftir hann valið sem táknmynd menningarársins.
Kærleikskúlurnar fjölbreytt safn listaverka
Kúlan Sýn bætist í fjölbreytt safn af Kærleikskúlum sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur gefið út fyrir jólin síðan 2003. Fjölmargir listamenn hafa lagt málefninu lið í gegnum árin og því eru kærleikskúlurnar fjölbreytt safn listaverka. Listamennirnir hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Sýn verður til sölu í 15 daga, frá 2. desember til 16. desember.
Kúlan verður formlega afhent handhafa kúlunnar í ár 30. nóvember næstkomandi við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Athöfnin hefst klukkan 11 og er öllum opin.