Karfan þín

Karfan er tóm.

Þvörusleikir síðastur til byggða í jólaóróasafni Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

Arnar&Arnar ásamt Kristínu Svövu Tómasdóttur
Arnar&Arnar ásamt Kristínu Svövu Tómasdóttur

Þvörusleikir er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2021. Hönnunarteymið Arnar&Arnar hannaði óróann og Kristín Svava Tómasdóttir samdi kvæði um kappann. Þvörusleikir er síðastur í jólaóróaseríunni sem telur alls sextán óróa. Jólasveinarnir þrettán hafa verið færðir í stál ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum. Markmiðið með gerð og sölu jólaóróanna er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna en allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til Æfingastöðvarinnar sem Styrktarfélagið á og rekur.

Okkar færustu hönnuðir og skáld hafa lagt okkur lið og gefið vinnu sína við að skapa jólaóróana og semja kvæði. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003. Jólaóróinn er framleiddur í takmörkuðu upplagi. Hægt er að nálgast eldri óróa á www.jolaoroinn.is Sala Þvörusleikis fer fram í gjafavöruverslunum um land allt dagana 2. - 16. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra http://www.jolaoroinn.is

Arnar&Arnar

Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson hafa starfað sem einn maður í teyminu Arnar&Arnar um árabil eða allt frá því að þeir unnu ótrúlegan sigur á tvíliðaleiksmóti í skvassi árið 2008. Þeir unnu lengi með Hönnunarmiðstöð og stofnuðu tímaritið HA Design Magazine. Arnar&Arnar reka nú hönnunarstofu og sérhæfa sig í mörkun og upplifunarhönnun. Arnar Ingi lauk gráðu í listrænni stjórnun frá IED Istituto Europeo di Design skólanum í Barcelona árið 2012. Arnar Fells útskrifaðist með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskólanum árið 2013 og lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020. Tvíeykið hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína og þeir hafa meðal annars hlotið gullverðlaun FÍT fyrir hönnun bókarinnar Gjöfin til íslenskrar alþýðu.

Kristín Svava Tómasdóttir

Kristín Svava Tómasdóttir hefur tekið virkan þátt í íslensku ljóðalífi frá unga aldri. Hún hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur, síðast Hetjusögur sem hlaut Fjöruverðlaunin árið 2020. Bók hennar Stormviðvörun kom út í Bandaríkjunum undir titlinum Stormwarning árið 2018 en fyrir hana var þýðandinn K.B. Thors tilnefnd til bandarísku PEN-verðlaunanna í flokki þýddra ljóðabóka. Kristín Svava var einn af ritstjórum ljóðabókaseríunnar Meðgönguljóða. Haustið 2021 gegndi hún starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands. Kristín Svava er með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Auk ljóðabókanna hefur hún sent frá sér sagnfræðiverkið Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem hlaut Viðurkenningu Hagþenkis árið 2018, og hún er einn af höfundum bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðirita árið 2020.