Karfan er tóm.
- Styrktarfélagið
- Æfingastöðin
- Reykjadalur
- In English
Í gær kvöddum við síðustu gestina í Reykjadal eftir frábært sumar. Við tókum á móti fleiri gestum en nokkru sinni áður á nýjum starfsstöðvum um land allt og sköpuðum ný sumarstörf fyrir námsmenn. Það var félags- og barnamálaráðherra sem styrkti okkur í þessum einstöku verkefnum. Alls skapaðist 51 starf fyrir námsmenn í tengslum við verkefnin og við tókum á móti 177 einstaklingum til viðbótar við þau sem komu í Reykjadal. Einnig komu 18 fjölskyldur fatlaðra barna í sumardvöl til okkar í Vík í Mýrdal.
Seint í vor fengum við tækifæri til þess að fara af stað með nokkur verkefni sem okkur hefur lengi dreymt um. Það var að frumkvæði félagamálaráðuneytisins sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid- 19 faraldursins. Markmið verkefnanna var að bjóða börnum og ungmennum með fötlun og/eða sérþarfir upp á afþreyingu í sumar og rjúfa félagslega einangrun þeirra.
Mörg börn og ungmenni með fötlun og sérþarfir, höfðu verið í verndarsóttkví lengi. Félags- og barnamálaráðherra vildi leita leiða til að gleðja þennan hóp og á sama tíma að létta á álagi fjölskyldna barna með sérþarfir. Fjórar hugmyndir urðu að veruleika. Ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði, Ævintýranámskeið Reykjadals á Víðistaðatúni í Hafnarfirði, Sumarfrí Reykjadals í Grindavík og sumardvöl fjölskyldunnar í Vík. Með þessum nýju tilboðum sköpuðum við sumarstörf fyrir námsmenn víða um land. Við gátum ekki bara tekið á móti fleiri börnum og ungmennum en vanalega heldur buðum við einnig fullorðnu fólki með fötlun að koma í sumardvöl á hóteli í Grindavík og þannig upplifa „Reykjadalsstemminguna“. Einnig buðum við fjölskyldum fatlaðra barna að koma í sumardvöl í Vík í Mýrdal. Atli Lýðsson leiddi verkefnið sem er að norrænni fyrirmynd og gengur í stuttu máli út á að bjóða fjölskyldum fatlaðra barna að fara saman í frí, skemmta sér og fræðast.
Við erum afskaplega þakklát fyrir það traust sem félagsmálaráðuneytið sýndi okkur og stolt af því hvernig tókst til. Við vorum mjög heppin með sumarið sem var fullt af gleði og ævintýrum.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá Ævintýrabúðum Reykjadals í Skagafirði og Sumarfríi Reykjadals í Grindavík. Eins og sjá má var farið víða og allsstaðar var tekið vel á móti gestum okkar: