Karfan þín

Karfan er tóm.

WOW Cyclothon er hafið og söfnun farin á fulla ferð

Hjólarar í einstaklingskeppni og Hjólakrafti lögðu af stað í gærkvöldi á nítjánda tímanum frá Ölgerðinni. Þrír þátttakendur eru skráðir til leiks í einstaklingskeppninni en hátt í 60 hjólarar taka þátt með Hjólakrafti. Söfnunin fyrir sumarbúðirnar í Reykjadal hefur farið vel af stað. 
Gestir sem eru í dvöl í sumarbúðunum þessa vikuna fjölmenntu við Þingvallaveg og hvöttu hjólarana áfram í gærkvöldi.

 

Fjögurra og tíu manna lið (A og B flokkar) verða ræst út í kvöld klukkan 18:00 og 19:00 frá Egilshöll en þar hefja yfir 60 lið sína hringferð í kringum landið. Í ár var bætt við svokölluðum firmaflokki en þar keppast starfsmenn fyrirtækja sín á milli um hvert er fljótasta fyrirtækið. Liðsmenn keppa einnig í að safna sem flestum áheitum. Glæsilegt lið Toyota leiðir nú áheitakeppnina og hefur þegar safnað 160.000 krónum en Hjólakraftur fylgir fast á hæla þeirra með 127.000 krónur og þá TEAM World Class sem safnað hefur 93.000 kr. Skipuleggjendur WOW cyclothon hafa sett markið hátt fyrir söfnunina í ár og freista þess að komast yfir tuttugu milljóna múrinn sem er vel gerlegt ef allir leggjast á eitt. 


Í viðtali við Fréttablaðið 25. júní sagði Margrét Vala, forstöðumaður Reykjadals, að þakklæti sé efst í huga enda muni styrkurinn skipta sköpum fyrir starfsemi sumarbúðanna. „Okkur hefur lengi dreymt um að geta stór­bætt að­stöðuna hérna hjá okkur með við­byggingu og við teljum að þetta verði mikil lyfti­stöng fyrir okkar verk­efni og geti gert þetta að veru­leika,“ segir Margrét aðspurð og að löngu sé orðin þörf á betri að­stöðu. „Þetta er auð­vitað aðal­lega að­stöðu­munur, að geta boðið okkar gestum upp á betri að­stöðu.“ 
En viðtalið við Margréti Völu má lesa hér. 



Hægt er að fylgjast með framgangi söfnunnarinnar með því að smella hér  og svo er hægt að heita á liðin á þessari slóð hérna